Tímamótaár að baki – ávarp sviðsstjóra velferðarsviðs

Í framtíðinni verður litið til ársins 2021 sem tímamótaárs í velferðarþjónustu Reykjavíkurborgar. Þá samþykktum við fyrstu velferðarstefnu borgarinnar. Stefnan, sem gildir fram til ársins 2030, er samvinnuverkefni fjölmargra hagsmunaaðila. Notendur velferðarþjónustunnar lögðu fram mikilvægt hráefni til velferðarstefnunnar, enda eru þeir helstu sérfræðingar sinna málaflokka, en einnig lagði starfsfólk velferðarsviðs, kjörnir fulltrúa, samstarfsaðilar og íbúar Reykjavíkur svo sannarlega sitt af mörkum. Við fórum ólíkar leiðir til að ná til fólks, því við vildum heyra raddir sem flestra svo endanleg stefna næði til allra. Vel tókst til og ég er afar stolt af útkomunni. Ég er sannfærð um vinnan sem liggur þarna að baki kemur til með að skila okkur bæði betri velferðarþjónustu og ánægðara starfsfólki þegar upp er staðið.

Samfélagið stendur í þakkarskuld við starfsfólk í velferðarþjónustu

Árið 2021 staðfesti í mínum huga það sem ég vissi reyndar þegar – að á velferðarsviði starfar metnaðarfullt og dugmikið fólk, sem finnur nýjar leiðir til að veita framúrskarandi þjónustu þegar þörfin kallar. Viðbrögð starfsmanna við öllum þeim áskorunum sem Covid-19 faraldurinn færði sviðinu eru sönnun þessarar fullyrðingar. Starfsfólk lagði á sig ómælda vinnu við að halda úti órofinni þjónustu og vernda þá viðkvæmu hópa sem sviðið er að þjónusta.

Oft hefur mér þótt skorta á að sá fjölmenni hópur sem sinnir velferðarþjónustu á Íslandi fái þær þakkir og þá viðurkenningu samfélagsins sem hann á skilið. Í okkar hópi eru sjúkraliðar, hjúkrunarfræðingar, sálfræðingar, iðjuþjálfar, sjúkraþjálfar, félagsráðgjafar og þroskaþjálfar – svo fáeinar stéttir séu nefndar. Einnig fjölmennur hópa starfsmanna í Eflingu og Sameyki. Þessar stéttir eru vanar að hlaupa hratt og bera mikla ábyrgð. Covid-tímum hefur fylgt mikill og verðmætur lærdómur en einnig mikið álag á starfsfólk. Það er því þörf á að huga vel að starfsumhverfi á stofnunum sviðsins, með heilsuvernd starfsfólks í huga. Nýjar tillögur þar að lútandi líta dagsins ljós nú á næstu vikum og því ber að fagna.

Merkilegir áfangar á árinu

Á árinu voru ýmis skref tekin í átt að betri velferðarþjónustu. Í tengslum við samþykkt velferðarstefnunnar voru samþykktar skipulagsbreytingar á velferðarsviði. Þjónustumiðstöðvar borgarinnar eru nú fjórar í stað fimm og heita Norðurmiðstöð, Austurmiðstöð, Suðurmiðstöð og Vesturmiðstöð. Auk þess hefur rafræn miðstöð bæst í hópinn, sem er í samræmi við stafræna vegferð borgarinnar. Henni er ætlað að vera fyrsta stopp notenda þjónustunnar. Skipurit voru samræmd á milli þjónustumiðstöðva og meðal annars voru nýjar deildir barna og fjölskyldna stofnaðar sem verða burðarás í innleiðingu nýrra farsældarlaga. Þá er aukin áhersla á virkni í tengslum við félagslega ráðgjöf og stuðningi við forstöðumenn búsetukjarna með stofnun deilda um málefni fatlaðs fólks á öllum miðstöðvum.

Þá voru sérhæfð teymi gerð sýnilegri í skipuritunum, meðal annars með stofnun Alþjóðateymis, sem ber ábyrgð á þjónustu við innflytjendur, umsækjendur um alþjóðlega vernd og flóttafólk en teymið heyrir nú undir Suðurmiðstöðina í Mjódd.
Við fylgdum markvisst uppbyggingaráætlun húsnæðis fyrir fatlað fólk og opnuðum fjóra nýja og glæsilega íbúðakjarna fyrir fatlað fólk á árinu sem við getum verið afar stolt af. Virknihús tók einnig til starfa en undir það falla öll virkniúrræði velferðarsviðs. Þá voru samþykktar nýjar reglur um stoð- og stuðningsþjónustu fyrir fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og jafnframt reglur um stuðningsþjónustu sem miða að eldri borgurum, sem allar fela í sér bætta þjónustu við þá hópa.

Miklar breytingar til að gera borgina enn betri fyrir börn

Á haustmánuðum 2021 samþykktum við líka að innleiða verkefnið Betri borg fyrir börn í alla borgarhluta. Því verkefni fylgir stóraukið samstarf velferðarsviðs við skóla- og frístundasvið með flutningi tuga starfa úr Borgartúni á miðstöðvarnar fjórar. Breytingarnar tóku gildi í janúar 2022 og er markmiðið að samhæfa eins og kostur er alla skóla-, frístunda- og velferðarþjónustu í borgarhlutanum og auka þverfaglega samvinnu.

Innleiðingu verkefnisins Betri borg fyrir börn fylgja fjöldi úrlausnarefna og áskoranna en starfsfólk velferðarsviðs mun halda áfram að takast á við þau verkefni af sömu bjartsýni og krafti sem einkennir starfsfólk sviðsins.

Regína Ásvaldsóttir
Sviðsstjóri velferðarsviðs

Velferðarþjónusta er mannréttindaþjónusta – ávarp formanns velferðarráðs

Við Reykvíkingar erum alls konar, með margvíslega hæfileika, drauma, þekkingu, reynslu, langanir og þarfir. Velferðarþjónusta gæti rétt eins kallast mannréttindaþjónusta því hún gengur út á að jafna tækifæri fólks og lífsskilyrði og tryggja að öll getum við tekið þátt í samfélaginu á okkar forsendum. Sumir íbúar þurfa umfangsmikla þjónustu í langan tíma, jafnvel alla ævi, meðan sum eru alveg ómeðvituð um tilvist hennar.

Velferðarstefnan tryggir þróun í rétta átt

Velferðarráð hefur í gegnum tíðina samþykkt margvíslegar stefnur og aðgerðaáætlanir í ákveðnum málaflokkum sem unnið er eftir á velferðarsviði. Mér fannst mikilvægt, þegar ég tók við sem formaður velferðarráðs, að við gerðum eina yfirstefnu sem tryggði að við værum að þróast í rétta átt í öllum málaflokkum, einskonar ramma fyrir velferðarþjónustu. Þrátt fyrir covid-ár og erfiðleika náðum við að fá fyrstu velferðarstefnu Reykjavíkur samþykkta í borgarstjórn á liðnu ári. Stefnan var unnin í miklu og þéttu samráði og samvinnu með borgarbúum, notendum þjónustunnar, hagsmunaaðilum, starfsmönnum og sérfræðingum. Rauði þráðurinn sem leiðir okkur í gegnum stefnuna er að öll þjónusta á að vera skipulögð og framkvæmd út frá þörfum og vilja notenda. Við Reykvíkingar viljum finna að á okkur sé hlustað og að þjónustan sé útfrá okkar þörfum en ekki útfrá fyrirfram skipulögðu kerfi. Við viljum efla snemmtæka þjónustu og forvarnir til að stuðla að heilsu og vellíðan okkar allra og þá um leið koma í veg fyrir margvíslegan vanda. Það var ákall um að einfalda aðgengi að þjónustu borgarinnar og gera hana aðgengilegri sem við gerum meðal annars með þjónustu í gegnum netið og að færa sjálfa þjónustuveitinguna nær notendum og á fleiri tungumálum.

Mikilvægur stuðningur við barnafjölskyldur

Við erum að auka og samþætta þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra með samhæfingu þjónustu á vegum skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs, bæði í innleiðingu farsældarlaga og í verkefninu Betri borg fyrir börn. Í aðgerðaáætlun gegn sárafátækt horfðum við einmitt sérstaklega til þess hvernig forða má börnum frá því að alast upp við fátækt. Til að styrkja enn stuðning við barnafjölskyldur þurfum við að halda áfram á þessari braut. Stuðningsþjónusta til barna veitir fjölmörg tækifæri til að tryggja öllum börnum tækifæri til að taka þátt í frístundum, styrkja sig og sína hæfileika. Virknihús styður notendur fjárhagsaðstoðar til virkni og vinnu, á þeirra forsendum. Þar eru fjölmörg námsúrræði og sértæk verkefni fyrir ákveðna hópa fólks. Á þessari braut er mikilvægt að halda áfram, valdefla fólk í erfiðum aðstæðum.

Framundan er fjöldi spennandi verkefna og stefnumótun hjá velferðarráði. Það er staðreynd að samfélög, þar sem samstaða og samhjálp er mikil, ná lengra sem heild en samfélög þar sem fólk hugsar fyrst og fremst um eigin hag. Það eru samfélög með sterkt velferðarkerfi. Nú höfum við velferðarstefnuna sem leiðarljós. Framundan er umbreyting þjónustu og forvarna í anda hennar. Ég hlakka gríðarlega til að vinna að því mikilvæga verkefni. Þetta eru spennandi tímar – megi virðing og umhyggja einkenna öll okkar störf.

Heiða Björg Hilmisdóttir
Formaður velferðarráðs

Heiða Björg Hilmisdóttir formaður velferðarráðs